Ekki missa af þessu

Húsfyllir á málþingi KALAK um Grænland og Ísland — stórkostleg ljósmyndasýning Jóns Grétars opnuð

Húsfyllir var á málþingi KALAK í Pakkhúsi Hróksins laugardaginn 1. apríl. Yfirskrift málþingsins var ,,Ísland og Grænland — vinir og samherjar í norðrinu” og frummælendur voru Heiðar Guðjónsson, Kristín S. Hjálmtýsdóttir, Árni Gunnarsson og Inga Dora Markussen. Fundarstjóri var Bogi Ágústsson fréttamaður og formaður Norræna félagsins.

Hrafn Jökulsson bauð gesti velkomna og fór nokkrum orðum um ljósmyndasýningu Jóns Grétars Magnússonar, sem opnuð var í tilefni dagsins. Jón Grétar er í stjórn KALAK og einn dyggasti liðsmaður Hróksins við útbreiðslu skákarinnar á Grænlandi. Ljósmyndir hans frá Austur-Grænlandi eru hreinustu listaverk. Myndirnar, sem eru 30 x 40 sm og innrammaðar, kosta 25.000 og rennur söluandvirði í starf Hróksins á Grænlandi. Sýning Jóns Grétars verður í Pakkhúsinu fram í maí.

Stefán Herbertsson formaður KALAK kynnti frummælendur og sérlegan gest fundarins, Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Guðlaugur Þór sagði að yfirskrift fundarins segði allt sem segja þyrfti um hið einstaka samband Íslands og Grænlands. Hann sagði jafnframt að aukin samskipti og samvinna við Grænlendinga væru forgangsatriði.

Heiðar Guðjónsson hagfræðingur, fjárfestir og höfundur bókarinnar Norðurslóðasókn, ræddi síðan um möguleika Grænlands á efnahagslegu sjálfstæði, en landið er enn mjög háð Dönum fjárhagslega. Grænland býr hinsvegar yfir miklum auðlindum og hefur alla burði í framtíðinni til að standa á eigin fótum.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdstjóri Rauða krossins sagði frá samvinnu Rauða krossins á Íslandi og Grænlandi, þar sem báðir geti mikið af hinum lært. Rauði krossinn á Íslandi hefur markað þá stefnu að auka sem mest samvinnu við Rauða krossinn á Grænlandi.

Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og formaður Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins ræddi mjög spennandi þróun í samgöngumálum á Grænlandi. Á næstu árum verða flugvellir byggðir upp og flugbrautir lengdar víða um Grænland. Samtímis verða miklar breytingar á sjóflutningum, þegar einokun verður loksins afnumi.

Inga Dora Markussen framkvæmdastjóri Vestnorra ráðsins flutti mjög áhugavert erindi þar sem hún fjallaði um möguleika á sjálfstæði Grænlands. Splunkuný skoðanakönnun sýnir að Grænlendingar vilja stíga varlega til jarðar í þeim efnum: Flestir vilja sjálfstæði, en með því skilyrði að því fylgi ekki stórfelld lífskjaraskerðing.

Málþingið heppnaðist í alla staði afar vel. Gestir gæddu sér á kjötsúpu sem Henný Níelssen galdraði fram. Margt er framundan hjá KALAK, vinafélagi Íslands og Grænlands. Sérlega gaman er að segja frá því að félögum í KALAK fjölgar ört og við hvetjum vini og velunnara til að hjálpa okkur við að safna nýjum félögum.

Myndaalbúm: Málþing um Grænland og Ísland

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...