Ekki missa af þessu

Kulusuk-hátíð í Pakkhúsi Hróksins á laugardaginn

Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, efna til skákmóts og kynningar á starfinu á Grænlandi 2019, í Pakkhúsi Hróksins á laugardaginn, 23. febrúar, klukkan 14. Þar verður slegið upp Kulusuk-skákmóti í tilefni af því að fyrsti leiðangur Hróksliða til Grænlands heldur til þessara næstu nágranna okkar í næstu viku.

Samhliða skákmótinu munu liðsmenn Hróksins og Kalak segja frá þeim verkefnum sem framundan eru. Um páskana verður 13. hátíðin haldin í Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, afskekktasta bæ Grænlands og í byrjun júní er komið að hinni árlegu Air Iceland Connect-hátíð í Nuuk. Síðar í sumar liggur leiðin m.a. til Tasiilaq, höfuðstaðar Austur-Grænlands, og Kullorsuaq á vesturströndinni, sem er á 73. breiddargráðu. Í desember standa Hrókurinn og Kalak svo fyrir árlegri jólasveinaferð til Kulusuk, en þá mun Stekkjarstaur færa öllum börnum í þorpinu gjafir.

Stærsta verkefni Kalak á árinu er að vanda tveggja vikna heimsókn 11 ára barna og fylgdarliðs frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi. Hingað koma þau til að læra að synda og kynnast íslensku samfélagi. Verkefnið sem er unnið í samvinnu við Kópavogsbæ, menntamálaráðuneytið, Air Iceland Connect og fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga hefur gengið framúrskarandi vel á liðnum árum og vakið mikla athygli og ánægju.

Hátíðin í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn, er öllum opin og eru nýir og gamlir Grænlandsvinir og skákáhugamenn hvattir til að kíkja í heimsókn. Vöfflur og ýmislegt góðgæti verður á boðstólum. Nokkur sæti eru laus á skákmótinu, og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig sem fyrst í netfanginu chesslion@hotmail.com.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...