Hjálparstarf kirkjunnar, í samvinnu við KALAK, Hrókinn og fleiri Grænlandsvini, hefur hrundið af stað landssöfnunni ,,Vinátta í verki” vegna náttúruhamfaranna á Grænlandi.
Flóðbylgja olli gríðarlegu tjóni í þorpinu Nuugaatsiaq aðfararnótt sunnudags og er fjögurra íbúa enn saknað. Fleiri þorp á svæðinu hafa verið rýmd enda alls ekki víst að hamförunum á Vestur-Grænlandi sé lokið.
Grænlendingar eru næstu nágrannar Íslendinga og milli þjóðanna eru sterk og traust vinarbönd. Þegar snjóflóðið mikla féll á Flateyri 1995 var efnt til landssöfnunar á Grænlandi og safnað hárri upphæð.
Margir eiga nú um sárt að binda á Grænlandi og mikilsvert að þeir finni að Íslendingar eru þeim vinir í raun. Söfnunarfé rennur óskert til neyðarhjálpar og uppbyggingar í samvinnu við sveitarfélagið og hjálparsamtök á svæðinu.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur opnað söfnunarreikninginn 0334-26-056200, kennitala 450670-0499. Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.
Nánari upplýsingar:
- Hrafn Jökulsson 763 1797