Næstkomandi laugardag, 6. júní kl. 14, er boðað til fagnaðarfundar í Pakkhúsinu og er heitið á alla vini Kalak og Hróksins að fornu og nýju, sem eru í aðstöðu til, að leggja söfnun Kalak í þágu barna á Austur-Grænlandi lið, allir velkomnir.
Á Austur-Grænlandi býr fólkið sem stendur Íslendingum næst — bókstaflega. Og Austur-Grænlendingar — sem eru minnihlutahópur með eigið tungumál — líta á Íslendinga sem vini og samherja.
Við ætlum að safna í þágu Barnaheimilis Margrétar prinsessu í Tasiilaq en þar búa börn sem ekki geta verið hjá fjölskyldum sínum. Langflest alast börnin upp á þessu góða heimili.
Barnaheimilið er nú að ráðast í langþráðar endurbætur á eldhúsi, þar sem jafnframt er matreitt fyrir íbúa á sambýli fyrir fatlaða.
Markmiðið er að safna 3 milljónum sem endurbætur og ný tæki kosta Barnaheimilið.
Leggið Kalak og Grænlandsvinum lið í þessari söfnun ef þið mögulega getið.
Takist okkur að safna þessari upphæð fyrir 17. júní heitir Hrafn Jökulsson því að verja ekki minni tíma og eldmóði í frelsun Kolgrafarvíkur og strandlengju Íslands en það tók að koma einu litlu skákfélagi á toppinn.
Fram til sigurs!
Verið velkomin
—
Söfnunarreikningur KALAK:
0322-13-100141
Kennitala:
430394-2239