
Haldið verður Air Iceland Connect-skákmót í tilefni af samnefndri hátíð sem er nýlokið í Nuuk.
Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, efna til fagnaðarfundar á þjóðhátíðardegi Íslendinga, mánudaginn 17. júní í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn, milli 14 og 16. Efnt verður til Air Iceland Connect-skákmóts í tilefni af því að nýlokið er samnefndri hátíð í Nuuk, sem heppnaðist með miklum ágætum.
Boðið verður upp á tónaveislu, myndasýningu frá Grænlandi og ljúffengar veitingar.
Heiðursgestur dagsins verður Guðlaugur Þór Þórðarson, sem í senn er Grænlandsvinur og harðsnúinn skákmaður.
Meistarar á borð við Hannes Hlífar Stefánsson, Braga Þorfinnsson og Björn Þorfinnsson hafa þegar boðað komu sína á skákmótið og eru áhugamenn hvattir til að skrá sig sem fyrst hjá Róbert Lagerman í chesslion@hotmail.com.
Allir gamlir og nýir vinir Hróksins og Grænlands eru hjartanlega velkomnir.

Vivian Motzfeldt þingforseti Grænlands var heiðursgestur hátíðarinnar í Nuuk. Hér ásamt Hrafni Jökulssyni og Þorbirni Jónssyni aðalræðismanni Íslands á Grænlandi.