Liðsmenn Hróksins mættu til Ittoqqortoormiit, afskekktasta bæjar Grænlands, þar sem í hönd fór þrettánda páskaskákhátíðin í röð. Þetta er jafnframt önnur ferð Hróksins til Grænlands á þessu ári en útbreiðsla skáklistar og vináttu hófst árið 2003 og eru ferðirnar alls orðnar um 80. Hátíðin nú var tileinkuð minningu Karls Napatoq, hins 25 ára veiðimanns og Hróksvinar, sem drukknaði í Scoresby-sundi 14. mars síðastliðinn. Karl og fjölskylda hans voru meðal fyrstu vina Hróksliða í Ittoqqortoormiit, og Paulus bróðir hans, sem er blindur, er besti skákmaður Austur-Grænlands.
Arnar Valgeirsson, sem var frumkvöðull að heimsóknum Hróksins til Ittoqqortoormiit, minnist Karls með mikilli hlýju:
,,Strax í fyrstu ferð Hróksins til Ittoqqortoormiit árið 2007 myndaðist vinskapur við fjölskyldu Karls. Þarna voru þau sjö systkinin, börn þeirra Jarusar og Nikolinu. Elstur Paulus, þá Karl, Emilia, Josef, Lea, Pauline og svo Mia litla, gleðigjafinn sem þau höfðu tekið að sér sem ungabarn. Þá átti Jarus son fyrir. Þessir krakkar með Paulus elstan, þá fimmtán ára blindan dreng, voru ótrúlega áhugasöm um skákina og það var mikil áskorun að kenna blindum pilti að tefla en hann var búinn að teikna borðið og mennina í huganum eftir svona 20 mínútur og lærði einfaldlega á fyrsta degi. Karli var veiðimennskan í blóð borin og sextán ára var það hans atvinna auk þess að fara með ferðamenn á hundasleðum út á hið ógnarmikla Scoresbysund sem tók hann til sín stuttu fyrir 26 ára afmæli sitt. Karl hafði ekki mikinn áhuga á skákinni þó hann kæmi og fylgdist með. Náttúrubarn fram í fingurgóma sem náði í sel fyrir bæði fjölskyldu sína og hunda. Veiddi moskuxa eða sauðnaut og var tilbúinn þegar ísbirnir ætluðu sér í þorpið. Lífsbaráttan er hörð þarna uppi í norðri og sorgin mikil hjá þessari mögnuðu fjölskyldu sem aldrei fellur verk úr hendi en Jarus byggði t.a.m. sitt hús sjálfur yfir fjölskyldu sína. Þar hafa liðsmenn Hróksins fengið margan kaffibollann, jafnvel eftir að hafa fengið sel, sauðnaut eða jafnvel ísbjarnarkjöt í kvöldmat. Karl lætur eftir sig barn sem hann átti úr fyrri sambúð. Minningarathöfn var haldin um hann þremur vikum eftir að hann hvarf úti á hafísnum, á tuttugu og sex ára afmælisdegi hans.”
Gleði og kærleikur eru leiðarljós Hróksins, og í þeim anda verður hins unga veiðimanns minnst. Leiðangursmenn nú voru Máni Hrafnsson og Joey Chan, sem eru nú í þriðja skipti fulltrúar Hróksins í ísbjarnarþorpinu mikla.
Á fimmtudeginum tefldi Máni Norlandair-fjöltefli við börn og fullorðna í íþróttahúsi bæjarins, á föstudaginn langa fór fram Páskaeggjamót BÓNUS og á laugardag var komið að Air Greenland Meistaramótinu. Á mánudag var svo Air Iceland Connect-hátíð, Dagur vináttu Íslands og Grænlands.
Samhliða skákinni fór fram myndlistarsamkeppni Pennans, sem Joey hafði umsjón með, og jafnframt heimsóttu áu dvalarheimili aldraðra og leikskólann í bænum, klyfjuð gjöfum frá fyrirtækjum og einstaklingum, ekki síst prjónahópnum góða í Gerðubergi og fleiri prjónakonum vítt og breitt um Ísland.
Ittoqqortoormiit er næstum þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli á Grænlandi, lífsbaráttan er hörð en mannlífið gott. Sem fyrr lögðust margir á árar með Hróknum til að gera þessa árlegu stórhátíð að veruleika: Norlandair, Air Greenland, Air Iceland Connect, sveitarfélagið Sermersooq, BÓNUS, Telepost, Mannvit, prjónakonurnar góðu og fleiri.
Hátíð Hróksins er tileinkuð minningu hins unga veiðimanns, Karls Napatoq, sem drukknaði í Scoresby-sundi 14. mars.
Karl Napatoq var, þrátt fyrir ungan aldur, einn helsti veiðimaður Ittoqqortoormiit, mikið náttúrubarn og Hróksvinur.
Hrókurinn kominn til Grænlands! Myndin var tekin skömmu fyrir páska á afskekktasta flugvelli Grænlands.
Joey Chan, einn af gleðigjöfum Hróksins á Grænlandi á flugvellinum Nerlerit Inaat 16. apríl 2019.
Ávallt gleði meðal barnanna sem taka þátt í hátíðinni.
Veiðimannafjölskylda. Karl heitinn, lengst til vinstri, með náhvalstönn, Jarus faðir hans með rostungshauskúpu, Paulus, blindi skáksnillingurinn og fjölskylduvinur.
Hróksliðinn Jóhanna Engilráð með hluta af páskaeggjunum sem BÓNUS gaf til hátíðarinnar.