Ekki missa af þessu

Vinátta í verki komin yfir 35 milljónir: Kærleikskeðja sveitarfélaga um allt land

Yfir 35 milljónir króna hafa nú safnast í landssöfnuninni Vinátta í verki, í þágu fórnarlamba hamfaranna á Grænlandi 18. júní. Hvert sveitarfélagið af öðru leggur söfnuninni lið, og er markmiðið að öll sveitarfélögin 74 myndi kærleikskeðju hringinn um landið, og þakki þannig Grænlendingum sem efndu til landssöfnunar þegar snjóflóðið mikla féll á Súðavík 1995.

Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Reykjanesbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Seyðisfjörður bættust í dag í hóp þeirra 22 sveitarfélaga sem þegar hafa svarað kallinu.

Vinátta í verki biðlar áfram til einstaklinga og fyrirtækja, að leggja söfnuninni lið, eftir efnum og aðstæðum. Þúsundir einstaklinga hafa þegar hringt í styrktarsíma eða lagt inn á söfnunarreikninginn.

Hver króna sem safnast fer í þágu þeirra sem verst urðu úti og kostnaður við Vináttu í verki er 0 krónur. Þau fjölmörgu, sem að söfnuninni koma, gefa vinnu sína og nokkrir fjölmiðlar birta ókeypis auglýsingar, m.a. Morgunblaðið, Stundin og Eyjan.

Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð þegar flóðalda gekk yfir smáþorpið Nuugaatsiaq, aðfararnótt 18. júní. Kim Kielsen forsætisráðherra Grænlands hefur nú lýst því yfir að Nuugaatsiaq verði mannlaust að minnsta kosti í eitt ár. Grunnskóli þorpsins, rafstöðin og verslunin voru meðal þeirra bygginga sem aldan ógurlega hrifsaði til sín, auk einbýlishúsanna. Íbúarnir, sem voru innan við hundrað, eru flestir í Uummannaq, 1.400 manna bæ í grenndinni, og er vel um alla hugsað.

Mánudaginn 19. júní tóku Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn höndum saman um landssöfnunina Vinátta í verki til að senda strax þau skilaboð til vina okkar á Grænlandi að í Íslendingum ættu þeir vini í raun. Fénu verður farið í þágu íbúa Nuugaatsiaq í samvinnu við fólkið sjálft, sveitarfélagið og þá aðila sem munu hjálpa fórnarlömbunum að byggja upp líf sitt að nýju.

Nánari upplýsingar glaðlega veittar

Talsmenn Vináttu í verki:

  • Íris Björk 845 1876
  • Karl Ottesen Faurschou: 783 1293

Hrafn Jökulsson, skipuleggjandi Vináttu í verki: 763 1797

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar: 528 4402

 

Reikningsnúmer Vináttu í verki:

  • 0334-26-056200
  • Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Áfram Grænland — lifi vináttan!

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...