Aðalfundur Kalak fór fram í Norræna húsinu þriðjudagskvöldið 13. febrúar og mættu tæplega 30 félagsmenn ásamt stjórn. Þetta var fyrsti aðalfundur Kalak um nokkurt skeið en yfir Covid árin var starfsemi félagsins í lágmarki en lagðist aldrei niður.
Eftirfarandi er fundargerðin, rituð af Ingibjörgu Hrefnu Björnsdóttur og nokkrar myndir frá fundinum.
Aðalfundur Kalak 2024
Haldinn í Norræna húsinu 13. febrúar 2024
Jósep Gíslason formaður Kalak setur fundinn, og tilnefnir fundarstjóra Sumarliða og Ingibjörgu Hrefnu Björnsdóttur sem ritara, tilnefning samþykkt.
Sumarliði fer yfir dagskrá fundarins. Hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.
Dagskrá aðalfundar
- Skýrsla formanns Jóseps Gíslasonar þar sem hann fór yfir starf félagsins síðastliðin fjögur ár. Ekki hefur verið haldinn aðalfundur síðastliðin 4 ár vegna Covid. Sjá nánar í skýrslu stjórnar 2023.
Engar athugasemdir eða fyrirspurnir bárust við skýrslu formanns.
- Skýrsla gjaldkera Skúla Pálssonar, ársreikningar. Sjá nánar meðfylgjandi skjal. Fjárhagsstaða félagsins er nokkuð góð, þrátt fyrir rekstrartap árið 2023 þar sem styrkir fyrir sund og skákverkefnum komu ekki inn fyrr en eftir áramót 2023/2024.
Spurningar varðandi félagatal. Nokkuð hefur fjölgað í félaginu, úr ca. 250 manns í ca. 280 manns. Innheimta félagsgjalda þó gengið verr.
Spurt út í hvort Icelandair styrki félagið með afslætti á flugfargjöldum. Flugfélagið veitir allt að 50% afslátt af flugfargjöldum sundkrakkanna.
Styrkir frá einstaklingum námu um 200.000 árið 2023. Heiðbjört Ingvarsdóttir óskaði þess að þeir sem vildu minnast Sunnu Reynisdóttur dóttur hennar myndu láta renna til Kalak. Margir vilja minnast Sunnu og hafa lagt Kalak lið.
Fundarstjóri ber reikninga félagsins undir fundinn, reikningar samþykktir með lófaklappi.
- Kosning stjórnar. Ingibjörg Hrefna Björnsdóttir gengur úr stjórn. Heiðbjört Ingvarsdóttir, Jósep Gíslason, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, Róbert Lagerman, Skúli Pálsson og Stefán Herbertsson gefa öll kost á sér áfram. Einnig hafa gefið kost á sér Inga María Brynjarsdóttir og Julia Kristina Isaksen. Myndaðist örlítill misskilningur um tölu stjórnarmanna en að endingu voru eftirfarandi kjörin í stjórn:
Heiðbjört Ingvarsdóttir, Inga María Brynjarsdóttir, Julia Kristina Isaksen, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, Róbert Lagerman, Skúli Pálssonw og Stefán Herbertsson.
Ný stjórn kjörin með lófataki.
Jósep Gíslason gefur áfram kost á sér sem formaður stjórnar og var kjörinn með lófaklappi.Kosning endurskoðenda, Peter Winkel Jessen og Vikar Pétursson, fór fram með lófaklappi, engin mótframboð bárust.
- Ákvörðun félagsgjalda. Ákveðið að láta félagsgjöld vera áfram 5.000 krónur.
- Önnur mál. Stefán Herbertsson kom upp og fór yfir þá góðu styrki sem að sundverkefni félagsins berast. Það eru Icelandair, rútufélög, MS, Norðlenska, Skátafélagið Hraunbúar, Kópavogsbær og kennarar í skólum bæjarins sem taka á móti börnunum.
Spurning úr sal hversu lengi félagsgjöld hafi verið 5.000 krónur, skv. gjaldkera var ákvörðun tekin um hækkun fyrir 3-4 árum og ekki tímabært í ár að hækka félagsgjöld. Má ræða það á aðalfundum komandi ára.
Fundi slitið klukkan 18.48.
Að loknum fundi var stutt kaffihlé áður en Sumarliði Ísleifsson hélt erindi um komu Grænlendinga til Ísafjarðar 1925 og aðdraganda þeirrar ferðar.
Ingibjörg Hrefna Björnsdóttir.
Koma Grænlendinga til Ísafjarðar 1925 og aðdragandi þeirrar ferðar
Sumarliði Ísleifsson hélt erindi um myndasýningu sem sett verður upp í Tasiilaq sumarið 2024. Sumarliði er vel fróður um næstu nágranna okkar í vestri og hefur viðað að sér gríðarlegum fróðleik um land og þjóð. Hann hefur komið að samantekt og uppsetningu ljósmynda sem teknar voru við komu Grænlendinga til Ísafjarðar 1925. Tilefnið var stofnun þorpsins Ittoqqortoormiit, nyrsta þorps á austurströnd Grænlands en lögð voru drög að þorpinu 1924 og hópurinn sem kom til Ísafjarðar var að flytja í þorpið. Það verður því 100 ára afmæli þorpsins innan skamms. Myndirnar á sýningunni tala sínu máli og tilvalið að skoða hana ef færi gefst en sýningin hefur áður verið sett upp í Veröld – húsi Vigdísar.
Eftirfarandi myndir eru frá aðalfundi Kalak og erindi Sumarliða.