Ekki missa af þessu

Air Iceland Connect-hátíð Hróksins í Nuuk 2018: Til lífs og til gleði!

• Velferðarsjóðurinn Vinátta í verki stofnaður í þágu barna og ungmenna á Grænlandi
• Hróksliðar halda hátíð í Nuuk, heimsækja skóla, fangelsi, athvörf og barnaheimili
• Mennta- og utanríkisráðherra Grænlands, Vivian Motzfeldt, heiðursgestur hátíðarinnar

Skákfélagið Hrókurinn efnir til Air Iceland Connect-hátíðarinnar 2018 í Nuuk, 8.-13. júní næstkomandi. Haldin verða skákmót og fjöltefli í Nuuk Center, grunnskólar, athvörf, fangelsi og heimili fyrir börn heimsótt. Yfirskrift hátíðarinnar er: Til lífs og til gleði.

Liðsmenn Hróksins fagna því nú, að 15 ár eru liðin síðan félagið hélt fyrsta alþjóðlega skákmótið í sögu Grænlands. Það var í Qaqortoq í júní 2003, og meðal keppenda voru sumir sterkustu skákmenn heims, fjöldi heimamanna, og forsetar grænlenska og íslenska þingsins, Jonathan Motzfeldt og Halldór Blöndal. Síðan hafa Hróksmenn heimsótt Grænland hátt í 70 sinnum, haldið fjölda hátíða og tekið þátt í ótal samfélagsverkefnum til að efla samskipti og vináttu nágrannanna í norðri.

Átta liðsmenn Hróksins lenda í Nuuk 8. júní. Leiðangursstjóri er Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, og með í för eru Róbert Lagerman skákmeistari og varaforseti félagsins, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt heiðursforseti Hróksins á Grænlandi, Stefán Herbertsson fv. formaður vinafélags Íslands og Grænlands, Max Furstenberg ljósmyndari, tónlistarmennirnir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson, og síðast en ekki síst hin 9 ára Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, sem er lukkutröll hátíðarinnar. Öll hafa þau margoft komið áður til Grænlands.

Hátíðin hefst formlega í Nuuk Center laugardaginn 9. júní klukkan 14 og verður Vivian Motzfeldt, mennta- og utanríkisráðherra heiðursgestur. Flutt verður tónlist og síðan munu Róbert og Hrafn tefla fjöltefli við gesti og gangandi. Öllum er velkomið að spreyta sig gegn meisturunum, og boðið verður upp á góðgæti frá Íslandi.

Sunnudaginn 10. júní klukkan 14 stendur Hrókurinn, ásamt Skákfélagi Nuuk, að Meistaramóti Nuuk 2018. Fyrstu verðlaun eru ferð til Íslands í boði AIC, en auk þess verður fjöldi annarra verðlauna. Öllum er velkomið að taka þátt.

Dagana 11. og 12. júní munu Hróksmenn heimsækja grunnskóla í Nuuk, og færa um 100 fyrstu bekkingum reiðhjólahjálma frá Kiwanis-klúbbnum Heklu á Íslandi og Eimskipum hf. Þá verður Pitu-barnaheimilið heimsótt, sem og athvörf fyrir ungmenni og fullorðna, efnt til skákviðburðar í fangelsinu og fleiri stöðum.

Fjölmörg fyrirtæki og eintaklingar leggja Hróknum lið við hátíðarhöldin í Nuuk, en stærstu bakhjarlar eru Air Iceland Connect og Reykjavíkurborg, vinaborg Nuuk.

Samhliða AIC-hátíðinni í Nuuk verður hleypt af stokkunum velferðarsjóðnum Vinátta í verki, í þágu barna og ungmenna á Uummannaq svæðinu. Hrafn Jökulsson forseti Hróksins stýrði landssöfnun á Íslandi, sem Hrókurinn, Kalak — vinafélag Íslands og Grænlands, og Hjálparstarf kirkjunnar, eftir hamfarirnar 17. júní í fyrra. Alls söfnuðust hátt í 40 milljónir íslenskra króna, frá fyrirtækjum og þúsundum einstaklinga. Öll sveitarfélög á Íslandi, 74 talsins, tóku þátt í söfnuninni. Fénu verður varið á næstu tveimur árum í þágu barna og ungmenna á svæðinu, og tíminn notaður til að byggja sjóðinn upp til framtíðar, svo hann nái til allra barna á Grænlandi.

Stjórn velferðarsjóðsins Vinátta í verki skipa Eldur Ólafsson jarðfræðingur og framkvæmdastjóri Alopex Gold, Margrét Jónasdóttir sagnfræðingur og kvikmyndaframleiðandi, Karl Peter Möller fulltrúi Nuugatsiaq og Illorsuit, Makkak Markussen yfirmaður hjá bæjarskrifstofunni í Uummannaq sem heldur utan um húsnæðismál og félagslegan stuðning við flóttafólkið, og Ann Andreassen forstöðukona Barnaheimilisins í Uummannaq. Varamenn eru René Kristensen frá Barnaheimilinu í Uummannaq og Helgi Jóhannsson lögmaður. Íslenska lögmannsstofan Lex og endurskoðendaskrifstofan PricewaterhouseCoopers starfa endurgjaldslaust næstu árin í þágu sjóðsins.

Fyrr á þessu ári færði Hrafn Rauða kross deildinni í Tasiilaq 75.000 DKK, sem persónulega gjöf í minningu móður sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, sem lést á síðasta ári. Jóhanna var mikil baráttukona í þágu barna um allan heim, og til hennar eru kjörorð hátíðarinnar sótt: Til lífs og til gleði.

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...