Ekki missa af þessu

Vinátta í verki nálgast 20 milljónir

Rúmlega 19 milljónir króna hafa safnast á fjórum dögum í landssöfnuninni Vinátta í verki, vegna hamfaranna á Grænlandi um síðustu helgi, þegar fjórir fórust og fjöldi fólks missti allt sitt. Þúsundir Íslendinga hafa lagt inn á söfnunarreikning eða hringt í styrktarsímann, en að auki eru fyrirtæki, sveitarfélög, klúbbar og félagasamtök að taka hressilega við sér.

Síðdegis í dag höfðu safnast nákvæmlega 19.072.642 kr. sem fara óskertar til Grænlands, í þágu þeirra sem verst urðu úti. Kostnaður við söfnunina er enginn, að sögn Hrafns Jökulssonar, talsmanns Vináttu í verki:

,,Við lögðum upp með að eyða ekki krónu í auglýsingar, starfsfólk, síma eða nokkuð annað. Ekki svo mikið sem eitt einasta frímerki. Öll framlög fara óskert til Grænlands. Eitt 2.500 króna símtal skilar 2.500 krónum, svo einfalt er það. Við erum himinlifandi yfir viðbrögðum almennings og nú eru fyrirtækin og sveitarfélögin byrjuð að taka hressilega við sér.”

Í dag var tilkynnt um 2ja milljón króna framlag Eimskips í landssöfnunni og útgerðarfélagið Brim lagði sömuleiðis til 2 milljónir. Báðum þessum rausnargjöfum fylgdu hlýjar kveðjur til Grænlendinga.

Hrafn segir að söfnunin standi a.m.k. næstu tvær vikur til viðbótar. ,,Við vorum auðvitað bara rétt að byrja. Við viljum senda sterk skilaboð til Grænlendinga. Þar eru peningar eða upphæðir nánast aukaatriði, þó við viljum auðvitað safna sem allra mestu. Það sem er þýðingarmest er að senda Grænlendingum skýr skilaboð að á Íslandi eigi þeir vini, félaga og bandamenn, sem aldrei bregðast.”

Á næstu dögum verður m.a. leitað til sveitarfélaga og fyrirtækja, auk þess sem áfram verður safnað af krafti með styrktarsíma og söfnunarreikningi.

Markmið skipuleggjenda er að fá öll sveitarfélög á Íslandi til taka þátt í Vináttu í verki. Nú þegar hafa stærsta og minnsta sveitarfélagið, Reykjavík og Árneshreppur, samþykkt framlög og í gær tilkynnti Borgarbyggð um 100.000 kr. framlag. Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarfélög til algerrar samstöðu í þágu þessa mikilsverða málstaðar.

Grænlenskir fjölmiðlar fylgjast grannt með fréttum af Vináttu í verki, og ótalmargir hafa tjáð innilegt þakklæti í garð Íslendinga fyrir samstöðu á erfiðum tímum.

Reikningsnúmer landssöfnunarinnar: 0334-26-056200
Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

 

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Vel heppnuð hátíð Hróksins og Kalaks laugardaginn 6. júní

Það var vel heppnaður dagur í pakkhúsinu í dag, laugardaginn 6. júní, þar sem mætti ...