Ekki missa af þessu
alt

Barnalíf á Grænlandi

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

altBarnalíf á Grænlandi er um margt frábrugðið barnalífi á Íslandi. Barn sem fæðist með stórfjölskylduna fyrir utan dyrnar tilbúna að bjóða það velkomið í heiminn er tilefni hamingjuláta ættingja. Þegar vinnufélagar mínir eignast barnabarn er ekki óalgengt að amman geri ,,pagga” í vinnunni.

,,Pagga” eru grænlensk fagnaðarlæti eins og þau gerast best. Þá kastar amman sælgæti, mynt og stundum perluskarti eða miðum sem ávísa á kassa af rækjum eða hreindýralæri upp í loftið og hinir vinnufélagarnir skríkja af gleði og henda sér í gólfið eftir gersemenum. Þá eru engar hömlur á hamingju og gleði, sumar ömmur eiga það til að rúlla sér á gólfinu, geifla sig og reka upp fagnaðaróp og allir taka undir með hvatningarópum og gleðióskum. Nýtt barn er fætt og amman orðin ríkari sem því munar.

Svo er skírt nokkrum mánuðum seinna, stundum tveimur nöfnum, oftar þremur til fjórum, sjaldan bara einu. Látnir ættingjar fá nöfnin sín með nýju barni og stundum þarf að koma mörgum að, og barnið tannlaust og bústið skælir kannski smávegis þegar kalt vatnið er látið leka yfir höfuð þess en virðist að öðru leyti ekki hafa áhyggjur af öllum þeim nöfnum sem því hafa verið gefin.

Það er haldin skírnarveisla þar sem borðin svigna undan kræsingum. Það er boðið upp á hreindýr, sauðnaut, rækjur og krabba, hvalspik og fiskisúpu, bollur og rjómatertur í röðum. Þegar barnið er hálfs árs er aftur boðið til veislu, áfanga er náð og honum ber að fagna. Barnadauði var áður mikill á Grænlandi, sérstaklega fyrstu mánuðina, og því er fagnað þegar barnið nær hálfs árs aldri, þá eru meiri líkur á að það hafi það af.

Afmælum er fagnað af sama innileika og fæðingu, það eru haldnar veislur, eða ,,kaffimik” opið hús fyrir alla sem vilja koma. Börnin fá stundum aur í gjöf, eða sápu og krem, leikföng og föt fyrir þau sem eldri eru. Vinir okkar hér sem eldri eru muna eftir að hafa fengið ávexti í dós og kexpakka frá nágrönnum og vinnufélögum foreldra að gjöf.

Margir strákar fá sinn fyrsta riffil í sex ára afmælisgjöf, lítinn riffil sem hæfir til að skjóta héra eða rjúpu. Synir Grænlands fara flestir til veiða og byrja snemma. Þegar þeir skjóta sinn fyrsta sel eða sitt fyrsta hreindýr er fagnað með því að deila bráðinni meðal vina og ættingja, “paggað” og slegið upp veislu. Litlar stelpur fá sjaldan riffil að gjöf, veiðin er enn að mörgu leiti helgiland karlmanna, stúlkur fá Ulu, hníf til að skafa skinn, garn og prjóna, perlur og skinn.

Margar af vinnufélögum mínum konur á miðjum aldri láta ekki segja sér að veiði sé fyrir karla, og fara með mönnum sínum eða hver með annarri á hreindýraveiðar. Skjóta dýrið og grófpartera það á fjalli bera það síðan niður fjöll að strönd með afturlappirnar á öxlunum og frampartinn í ennisbandi og bakgjörð. Sigla heim og taka til við að vinna kjötið, sneiða fituna í mola og setja út í kaffið, grænlenskur rjómi. Börn þessara kvenna eru börn tveggja heima, börn náttúrunnar og alþjóðavæðingar. Flest hafa þau farið á veiðar með foreldrum sínum síðan þau voru lítil spörð og kunna til verka þegar vinna þarf kjöt eða slægja fisk, súta skinn og prjóna peysu. Þau hafa mörg verið skiptinemar erlendis og eru nú flest í framhaldsnámi í Danmörku eða Nuuk og velja vonandi að búa í Grænlandi að námi loknu. Þessi börn taka við keflinu af mæðrum sínum sem hafa unnið að því að gera líf barna og kvenna betra og öruggara á Grænlandi-og vonandi munu þau ná enn lengra í því að uppræta ofbeldi gegn konum og börnum.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

Leiðin til Grænlands

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Við komum fyrst til Grænlands í júlí 2009. Ég andaði ...