Ekki missa af þessu

Leiðin til Grænlands

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

Við komum fyrst til Grænlands í júlí 2009. Ég andaði að mér þunnu og frísku lofti í Kangerlussuaq og vissi að nú höfðu orðið þáttaskil í lífi mínu og fjölskyldunnar.

Leiðin til Grænlands var löng Rúmum tíu árum áður en við hjónin komum hingað fyrst, fórum við í fyrsta skipti í bíó saman og sáum myndina Lysets hjerte í Háskólabíó, dönsk-grænlensk kvikmynd, og söguþráðurinn um Grænland samtímans. Ég man ekkert eftir myndinni. Öll orkan fór í að vera á stefnumóti, leiðast- ekki leiðast, deila poppi eða sinnhvorn skammtinn, sleppa poppi? Allskonar merkar pælingar sem allir sem hafa farið á bíó saman í nýtilkomnu tilhugalífi kannast við.

En við vorum sammála um að þessa mynd yrðum við að sjá – þó okkur sé fyrirmunað að muna eftir henni í dag.

Grænland var fyrsta landið sem faðir minn heimsótti. Hann keypti miða til Kúlusúkk á sjötta áratugnum og bauð mömmu sinni með sér. Mamma fór löngu seinna með mömmu sína og móðursystur í dagsferð til suður Grænlands.
Föðursystir mín sagði mér frá myndinni sem var til af ömmu hennar ungri, langömmu minni sem þau systkynin kölluðu “myndina af grænlensku konunni”. Einu sinni var ég hjá ungum tannlækni, hann sagði að ég væri með grænlenskar framtennur! Svona spinnast þræðirnir.

Svo fluttum við til Danmerkur. Ég fór í hjúkrunarfræði og margir kennaranna höfðu dvalið í Grænlandi um einhvern tíma, og sögðu kostulegar og hetjulegar sögur af lífi og störfum þar. Óli, sem var orðinn maðurinn minn fór í ljósmyndanám og kláraði það og vildi læra meira. Við flettum í gegnum firnaþykkan bækling frá Kaupmannahafnarháskóla og að lokum endaði hann á að sækja um nám í Eskimóafræðum.

Ég hélt áfram að hitta hjúkrunarfræðinga sem höfðu búið í Grænlandi að námi loknu, og drakk í mig sögur af dvölinni og lífinu þar. Allt virtist svo ævintýralegt, veturinn og sumarið, hundarnir ísinn og norðurljósin, starfsskilyrðin og fólkið.

Stundum hittum við Grænlendinga á samkomum í Kaupmannahöfn, fórum á jólatónleika í Heilagsandakirkjunni á Strikinu og hlustuðum á raddaðar stemmur Aavaat kórsins, dönsuðum hraðan polka í Færeyingahúsinu og skáluðum við handboltalandsliðið á Skarfinum.

Ég hjúkraði Grænlendingum á Ríkisspítalanum og fékk að smakka á þurrkaðri loðnu, sem heitir ammasat á grænlensku og er skóflað spriklandi upp úr hafinu á vorin og lögð til þerris, þá gleðjast bæði menn og hrafnar.

Oft var heimþráin sár hjá þeim sem ég hjúkraði, þau voru fárveik og dvöldu mánuðum saman í stórborg þar sem ekkert minnti á það sem heima var, enginn snjór, norðuljós eða tunglskin, bara eintóna grár vetur og ljósgrænt vor.

Á Íslandi varð hrun veturinn sem Óli var á lokaári í Eskimóafræði. Við höfðum sagt við hvort annað þegar við héldum til Danmerkur vorið 1999 að við myndum vera í mesta lagi 10 ár. Þau voru skyndilega að verða liðin, Ísland á hausnum og við búin að vera alltof lengi á stúdentagörðum í Kaupmannahöfn. Þá sóttum við um að komast til Sisimiut, ég til að hjúkra og hann sem safnvörður á bæjarsafninu.

Og frá því að ég dró í fyrsta skipti að mér andann á sólbjörtum degi í Kangerlussuaq í júlí 2009 hef ég haft Grænland með mér hvert sem ég fer- og þannig er um flesta sem hingað koma. Grænland, “stórasta eyja í heimi” tekur sér bólstað í hjörtum þeirra og ferðast með þeim um ókomna tíð.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

alt

Barnalíf á Grænlandi

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Barnalíf á Grænlandi er um margt frábrugðið barnalífi á Íslandi. ...