Ekki missa af þessu
Fjölskylda á skíðum

Þorp á hjara veraldar

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

Það getur stundum verið bæði skrýtið og skondið að búa í litlu þorpi á hjara veraldar. Við komum hingað fyrst sumarið 2009. Höfðum áður búið á stærstu stúdentagörðum Norðurlanda Eyrarsundsgarði í miðri Kaupmannahöfn og við fullorðna fólkið tókum frelsinu, víðáttuni og náttúrfegurðinni fagnandi. Seinna þetta sumar byrjaði elsti sonur okkar í fyrsta bekk í Skóla 2, nýorðinn sex ára, tannlaus og ringlaður eftir flutninga milli heima. Okkur fannst allt svo smátt og öruggt í þorpinu og gerðum ráð fyrir að honum þætti það líka, og þessvegna sendum við hann einan í strætó í skólann. Það fannst honum ekkert sniðugt-og grét úr sér augun þegar hann komst ekki úr strætó á áfangastað-allir hinir voru líka að fara í skólann og tróðust út, hann grét úti á götu þegar hann loks komst út “mamma enginn hjálpaði mér, fullorðið fólk á að hjálpa börnum” sagði hann. Við enduðum á því að pabbi hans hjólaði við hliðina á strætó meðan veður leyfði og þegar veturinn tók yfir þá kom hann með mér í strætó fyrir allar aldar og beið eftir að skóli hæfist í öruggu skjóli frístundaheimilisins.

Áður en við lögðum í hann frá Kaupmannahöfn hafði ég þrætt grænmetissalana á Amager og keypt kryddvörur, fræ og baunir sem ég reiknaði aldeilis ekki með að geta nálgast hér, eitthvað á því á ég enn uppí skáp. Hér fæst næstum alltaf næstum allt. En stundum fæst næstum ekki neitt. Við völdum að flytja til Sisismiut meðal annars vegna þess að hingað sigla skip allt árið um kring, en ekki bara tvisvar á ári eins og nyrst, og austast í landinu. En skipum seinkar og þá koma engar vörur, fyrst klárast ávexti og grænmeti, þá blasa við tómar hillur, og tættur miði með afsökunarbeiðni frá kaupmanninum-Skipinu seinkar, afsakið. Þegar svínainflúensan geisaði hér sem harðast veturinn 2009 til 2010 varð röskun á skipaferðum vegna íss og súrefnisbirgðar spítalans kláruðust og við notuðumst við vélar sem vinna súrefni úr andrúmslofti handa veikustu sjúklingunum meðan við biðum eftir að ísa leysti og skipið kæmist í höfn. Síðastliðið sumar var þvottahúsið í bænum sem þvær fyrir sjúkrahúsið að endurnýja hjá sér og það dróst á langinn. Óli maðurinn minn hvítnaði aðeins þegar hann komst að því að sjúklingafötin voru þvegin í þvottavélinni okkar, ég sagði bara “já, já” þegar ég var spurð hvort spítalinn mætti ekki þvo nokkrar vélar heima hjá okkur.

 

Stundum þarf að aflýsa fyrirhuguðum kvikmyndasýningum vegna veðurs, flugvélin getur ekki alltaf lent með spóluna. Sundlaugin er bara opin þrjá mánuði ársins, og aðeins í boði að vera ofan í í klukkutíma í senn, ekki eins og á Íslandi segja synir mínir þar sem sund er alltaf opið, líka á næturna og það er allsstaðar rennibraut nema í Vesturbæjarlauginni, þar er bara rennibraut fyrir lítil börn. Á móti kemur að skíðabrekkan er inni í bænum og kostar ekkert í hana, það finnst þeim betra en á Reykjavík þar sem þarf að keyra alla leið norður á Akureyri til að komast á skíði – þeir hafa aldrei komið í Bláfjöll.

Við eigum engan bíl og tökum þessvegna oft strætó og pöntum okkur leigubíl. Bærinn er lítill og við búum miðsvæðis í “Nakorsaq illua” læknahúsinu og erum ekki alltaf tilbúin þegar bíllin kemur, leigubílstjórinn bíður rólegur fyrir utan, flautar með kántrítónlistinni sem gjarnan er spiluð í útvarpinu og kveikir ekki á mælinum fyrr en allir eru búnir að koma sér fyrir í bílnum. Strætóbílstjórarnir þurfa stundum að skreppa inn eftir kaffibolla í miðjum hring, þá bíða farþegarnir rólegir á meðan og humma með tónlistinni eða dást að sólinni kasta geislum sínum á marglit tréhús í sexþúsund manna þorpinu rétt norðan við heimskautsbaug.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

alt

Barnalíf á Grænlandi

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Barnalíf á Grænlandi er um margt frábrugðið barnalífi á Íslandi. ...