Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut
Ég á þrjá syni, þeir yngri hafa búið stærstan hluta ævi sinnar á Grænlandi, sá elsti bjó í sex ár í Danmörku og hefur núna búið ríflega fimm ár Grænlandi, þeir bjuggu í tvö og hálft ár á Íslandi áður en við fluttum aftur til Grænlands.
Þeir tala þrjú tungumál og ég hef ekki teljanlegar áhyggjur af framtíð þeirra. Ég hugsa að þeir geti stundað framhaldsnám á Íslandi, á Grænlandi eða jafnvel Danmörku, tungumálakunnáttan verður allavega ekki til þess að hefta þá í því sem þeir vilja taka sér fyrir hendur í framtíðinni.
Því miður er það ekki svo um alla leikfélaga þeirra hér í Sisimiut.
Íbúar Grænlands eru ríflega fimmtíuogfimmþúsund, þar af eru í kringum sjöþúsund innflytjendur eins og við, fólk sem kemur til lengri eða skemmri tíma í vinnu og ævintýraleit. Framhaldsskólar og heilbrigðiskerfið byggir að miklu leyti á innflytjendum. Kennsla á efri skólastigum fer að mestu fram á dönsku, grunnskólanámið fer fram á grænlensku. Eintyngd grænlensk börn eiga erfitt uppdráttar í framhaldsnámi og nær helmingur þeirra flosna upp úr námi. Atvinnuleysi meðal ungmenna á aldrinum 18-24 ára er níu prósent.
Grunnskólanám fer fram á grænlensku, og nær allir grunnskólakennarar eru tvítyngdir, tala bæði grænlensku og dönsku. Fram undir 1990 var grunnskólanemum deilt í danska bekki og grænlenska bekki, síðar var vikið frá þeirri aðskilnaðarstefnu og allir settir saman í bekk.. En þar sem að framhaldsnám fer að mestu fram á dönsku eiga börn sem ekki hafa lært dönsku nema að litlu leyti erfitt uppdráttar þegar þau hefja nám á framhaldsstigi. Við getum ímyndað okkur íslensk börn fara í menntaskóla þar sem að meiri hluta kennaranna væri danskur, ég er ekki viss um að margir myndu endast lengi við það nám.
Fjórir bæir bjóða uppá menntaskólanám, Aasiaat við Diskóflóa, Sisimiut í mið Grænlandi, Nuuk sem er höfuðborgin og Qaqortoq á suður Grænlandi. Börn sem koma frá byggðum, þar sem búa á bilinu 50 til 500 manneskjur þurfa að flytja að heiman til þess að stunda menntaskólanám, þau fá inni á stúdentagörðum þar sem að yfirleitt er ráðskona sem aðstoðar við athafnir daglegs lífs. Mörg þurfa aðstoð við að vakna, unglingar eru gjarnir á að sofa á daginn og vaka á næturnar grænlenskir unglingar eru þar eins og jafnaldrar þeirra um heiminn, en þau þurfa líka aðstoð við að þvo þvottinn sinn, halda herberginu sínu í nokkurn vegin lagi, kaupa í matinn og sjá til þess að aurinn endist út mánuðinn, og stundum þurfa þau einfaldlega umhyggju og velvild fullorðins einstaklings sem getur tekið utan um unga manneskju í tilvistarkreppu. Börnin sem koma langt að fara heim tvisvar á ári, um jól og í sumarfrí. Einstaka hafa kost á að komast heim í páskafrí. Fyrir utan það að vera langa vegu að heiman í oft miklu stærra samfélagi en þau eiga að venjast þá þurfa þau líka að takast á við nám byggt á tungumáli sem þau hafa ekki full tök á, og gildum sem þau eiga ekki að venjast.
Fyrst eftir að við komum hingað gerðist það stöku sinnum að elsti sonur okkar kom of seint í skólann, við foreldrarnir sem vissum uppá okkur skömmina kenndum drengnum að biðjast afsökunar á því að koma of seint, “kennarinn sagði bara að það væri allt í lagi, hún sagði bara að það var gott að ég kæmi” sagði drengurinn þegar við inntum hann eftir viðbrögðum kennarans.
Í framhaldsskólanum er mætingaskylda, og þar þýðir ekkert að biðjast afsökunar á því að mæta of seint eða mæta ekki, það veit ég sem að skrópaði mig margoft út úr Flensborgarskólanum, að getur verið flókið fyrir unglinga allra landa, og kannski ekki síst fyrir ungmenni sem eru alein á heimavist í ókunnugum bæ. Það er hætta á því að gjáin milli þeirra sem hafa tök á að leita sér menntunnar og hinna sem sökum ónógrar dönskukunnáttu ekki hafa sömu tækifæri til framhaldsnáms muni breikka enn frekar næstu áratugi, allt þar til að Grænlendingar sjálfir verða orðnir nógu margir og nægilega vel menntaðir til þess að geta kennt á framhaldsskólastigi. Kannski er það útópísk hugsjón að örþjóð í strjálbýlasta landi heims geti einhverju sinni tekið yfir menntun ungmenna sinna, en draumurinn er til staðar og ég vona að sá draumur rætist á næstu áratugum, svo börn leikfélaga sona minna eigi möguleika á að mennta sig á móðurmáli sínu grænlensku.