Ekki missa af þessu

Grænlensk þögn og grænlensk gleði

Að fæðast og deyja á Grænlandi gerist sjaldan í einrúmi. Fjölskylduböndin eru sterk og á mikilvægum stundum styrkjast þau enn meira.

Við barnsfæðingar er ekki óalgengt að faðir barnsins, ömmur þess og stundum afar séu með inni á fæðingarstofunni. Frammi á gangi bíða systkyni foreldranna, systkyni barnsins, afar og frændur, vinkonur og frænkur sitja í þögn og bíða. Grænlendingar eru snillingar í að bíða, hafa beðið í þúsundir ára eftir sel og hval, hreindýri og sauðnauti og finnst ekki mikið mál að bíða heila nótt eftir að heyra skæran grát barns sem dregur að sér andann fyrsta sinni.

Við barnsgrátinn léttist brúnin á viðstöddum, það er faðmast, kysst og klappað á öxl, tár þerruð af brosmildu andliti á meðan beðið er nánari fregna af kyni og stærð.

Svo stingur amma fram höfðinu og færir fregnir af því hvort sé kominn sé lítill drengur eða lítil stúlka. Rétt þegar búið er að hlúa að nýbakaðri móður hópast gestirnir inn á fæðingarstofuna til þess að sjá nýburann og lykta af eilífðinni.

Stóru systkinin skríða upp í rúm hjá mömmu sinni og litla barninu sem er kallað ,,nunu” og fá að kyssa það og a-aa það með litlum höndum sem verða svo ógnarstórar í samanburði við nýfædda hönd. Fyrir utan sjúkrahúsið er fáninn dreginn að húni, og nýtt barn boðið velkomið í bæinn.

Við ferðalok hópast fjölskylda, vinir og vinnufélagar að. Það er setið við dánarbeðið, hlúð að þeim sjúka og beðið. ,,Og enginn var nú hávaðinn,” hefði afi minn Vestfirðingurinn sennilega sagt. Það er beðið í þögn, allt þar til að presturinn kemur og gefur tóninn í Hærra minn Guð til þín, ofurhægt er sungið í gegnum öll erindin og grátið svolítið áður en allir ræskja sig og halda áfram að bíða — í þögn.

Þegar andlátið loks ber að er eins og öllum hömlum sleppi, gráturinn endurómar um ganga sjúkrahússins, einlægur og sár. Svo er sungið meira, áður en farið er heim til að sækja föt. Á sjúkrahúsinu fer flaggið í hálfa, og bæjarbúar lúta höfði.

Hinn látni fer vel búinn á vit eilífðarinnar, klæddur sínum uppáhaldsfötum, í úlpu með húfu og vettlinga og hlýjar hosur á fótunum. Sex tímum eftir andlátið er aftur sungið, þá kemur presturinn og syngur með syrgjendum, það kallast að syngja út. Að söngnum loknum er hinn látni fluttur í kapelluna í kjallara sjúkrahússins þar sem hann bíður hinstu ferðar.

Við fjölskyldan búum á sjúkrahúslóðinni og synir mínir fylgjast spenntir með flaggstönginni sem stendur á hól framan við spítalann, og spyrja fregna þegar fáninn fer á stjá.

Yngsti sonur okkar er fæddur hér í Sisimiut. Hann var tveggja klukkustunda gamall þegar við sendum skilaboð til umheimsins að það væri fæddur drengur. Það liðu ekki tuttugu mínútur áður en fyrstu gestir mættu til að virða hann fyrir sér og anda honum að sér, óska til hamingju og grínast með vökunætur og bleyjuskipti.

Nýburinn lét sér fátt um finnast en stóri bróðir hans man enn hvað komu margir að heilsa uppá nýfæddan strák: ,,Mamma það var bara eins og við værum grænlensk þegar Hrafn fæddist, það komu svo margir að sjá hann!”

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

Leiðin til Grænlands

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Við komum fyrst til Grænlands í júlí 2009. Ég andaði ...