Ekki missa af þessu

Það besta við Grænland

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut

Rétt þremur vikum eftir vetrarsólstöður finnum við hér á 66. breiddargráðu hvernig birtan vinnur smám saman á myrkrinu sem hefur umlukið okkur mestan part sólarhringsins síðan í nóvember. Seinnipartinn er enn blá slikja á himnum og í vestri málar sólin myndir með litum sem engin nær að blanda eins og hún.

Jólahaldi lauk þann 6.janúar með ,,Mittartut,” eða ,,sá sem fer í gerfi .” Leikskólakennari sonar míns bauð honum að koma við og lofaði gotteríi og ís. Hann bauð syni nágranna okkar með og upphófst mikil leit að rétta búningnum. Hefðbundinn búningur á Mittartut er stór og mikil peysa eða úlpa með tróð, gúmmístígvél, hetta og kústprik. Andlitið er klesst með svörtum lit, hárið ýft, og látið falla fram svo þátttakandi verður óþekkjanlegur.

Svo er haldið af stað, bankað uppá hjá vinum og nágrönnum þar sem Mittartutinn skekur sig og geiflar og passar sig á því að segja ekki orð svo hann þekkist ekki.
Að launum er sælgæti og kökur eins og hver getur í sig látið.

Tveir snáðar á sjötta ári hölluðust frekar að því að vera ofurhetjur en klæddir gömlum peysum af mömmum sínum. Það varð því úr að við héldum af stað með tvo blendinga af Leðurblökumanninum, Ninja Turtles, Járnkallinum og Anakin Geimgengli.

Ofurhetjurnar misstu aðeins máttinn þegar á hólminn var komið, niður tröppurnar gengu bosmamiklar maddömmur, kolsvartar í framan, veifandi kústsköftum. En sælgætið freistar, svo upp hófu þeir sig og mynduðust við að tala ekki við Ane leikskólakennara, sem lék á móti þeim og furðaði sig á þessum skrýtnu köllum sem voru komnir til hennar. Qujan — takk, sögðu þeir roggnir og sælir með heimsóknina, hlaðnir pepsí kóla, íspinnum og sælgætispoka. Ó, nei sagði sonur minn, Mittartut má ekki tala. Þá hló Ane sínum lága milda hlátri.

Daginn eftir voru jólastjörnur horfnar úr öllum gluggum, vindinn hafði lægt og frostið mildast. Nestuð heitu vatni og sólberjasaft, samlokum með makríl og túnfisk og Prins póló héldum við í austur inn að Sólbakka á vélsleða með sleða aftan í, þar lágu tveir drengir undir snjóbrettum, skíðum og stýrissleða, einn drengur og tvö fullorðin geta hæglega setið Arctic-köttinn. Eftir ótal ferðir niður brekkur á brettum og skíðum, og upp á snjósleða var gott að fá heita saftina og ískalt rúgbrauðið með fiskmetinu.

Um kvöldið matarklúbbur, með vinum okkar frá Grænlandi og Færeyjum. Þar sötruðum við í okkur hreindýrasúpu með paprikku og súpujurtum, dreyptum á víni og létum okkur dreyma um að opna bókakaffi þar sem í boði væri einmitt þessi súpa og misgáfulegar samræður við okkur afkvæmi eyjanna þriggja í Norður-Atlantshafi.

Hláturinn fylgdi okkur heim í síðkvöldinu, á blásvörtum himni blikuðu stjörnur og yfir Kerlingarhettunni dönsuðu norðurljósin sinn eilífðardans. Tunglið var bjart og bauð góða nótt.

Umræður

ummæli

Um Ingibjörg Björnsdóttir

x

Við mælum með

Leiðin til Grænlands

Ingibjörg Björnsdóttir skrifar frá Sisimiut Við komum fyrst til Grænlands í júlí 2009. Ég andaði ...