Allt gengur samkvæmt langbestu óskum með sundkrakkana enda hópurinn ótrúlega vel skipaður að þessu sinni. Undanfarin ár hafa börnin verið nálægt þrjátíu en eru nú 24 frá minni þorpum austurstrandar Grænlands. Fararstjórarnir koma frá Ittoqqortoormiit, Tasiilaq og þrjú frá Kulusuk, þar á meðal herforinginn sjálfur, Lars Peter Stirling. Hann hefur rifið upp skólann í Kulusuk undanfarin ár og er nú grunnskólinn þar talinn með þeim betri á Grænlandi. Lars Peter hefur haldið utan um ferðirnar – Grænlandsmegin – frá upphafi og er farinn að þekkja höfuðborgarsvæðið mjög vel.
Í dag, fimmtudag, er ferðinni heitið að Gullfossi og Geysi en í gær bauð forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, börnunum í heimsókn sem svo oft áður. Spjallaði hann við börnin og sagði þeim að hann hefði hitt Pútin um daginn og sagt honum frá því að þau væru á leiðinni til Íslands til að læra að synda. Svona meðal annars.
Skúli Pálsson, gjaldkeri Kalak, sem hefur skipulagt heimsóknirnar og passað manna best upp á að allt gangi eins og best verði á kosið, var með í för. Hann hefur staðið sig eins og hetja. Það hafa krakkarnir líka gert og eru prúð svo eftir er tekið og líka ótrúlega dugleg í sundinu auk þess sem þau láta sig ekki muna um að skokka í einum hóp frá Nýbýlaveginum í Kópavogi í Kringluna eða Smáralind, svona til að kíkja á rúllustigana og aðeins í búðir.