Ekki missa af þessu

Frá aðalfundi Kalak

Helstu málefni sem komu fram á aðalfundi Kalak eru eftirfarandi:

Aðalfundur Kalak, haldinn í húsi Norræna félagsins, Óðinsgötu 7 í Reykjavík, fimmtudaginn 26. apríl kl. 20:00

Fámennt, en mjög góðmennt, var á fundinum. Tólf manns úr þessu tæplega 200 manna félagi voru með.

Halldór Björnsson, formaður, setti fundinn og stakk upp á Friðriki Brekkan sem fundarstjóra og Arnari Valgeirssyni sem ritara og var það samþykkt. Þá fór formaður yfir starf Kalak á síðasta ári og þar kom fram að hæst bar heimsókn ellefu ára barna frá minni byggðum austurstrandarinnar. Koma þau til að læra að synda og ganga í skóla með jafnöldrum í Kópavogi. Þá kom Halldór að fjármögnun sem hefur verið erfiðari eftir fjármálahrunið 2008 en þó hefur þetta gengið upp og gerir vonandi áfram.

Lilja Sigurðardóttir sem á svo margan hátt hefur aðstoðað varðandi komu „sundkrakkana“ lét gera jólakort sem seld voru og gekk það ágætlega. Þó er mikið til ennþá sem komið skal út fyrir næstu jól.

 


 

Eitt fyrirlestrakvöld var haldið í vetur og sá Ragnar Hauksson um það eins og síðasta ár. En í ár flutti hann einkar áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur um för Dr. Alfred Wegeners yfir þveran Grænlandsjökul ásamt Íslendingnum Vigfúsi Sigurðssyni og dananum Koch, en það sem sérstakt var við þennan leiðangur var að íslenskir hestar voru notaðir sem dráttarklárar og reyndust þeir einstaklega vel við erfiðar aðstæður.

Kalak hefur sem fyrr verið í góðu samstarfi við skákklúbbin Hrókinn og fóru fjórir skáktrúboðar Hróksins, 10. árið í röð í leiðangur til Grænlands.

Í vetur var stofnað í Nuuk systurfélag Kalak sem heitir Kammai Islandiip og er formaður þess Inga Dóra Markussen. Markmið félagsins er hið sama og Kalak að efla tengls milli landanna og stuðla að frekari samskiptum á sem flestum sviðum. Blés félagið til heimikils Íslandskvölds í Nuuk í lok mars þar sem haldið var þorrablót að íslenskum sið. Þess má geta að Inga Dóra bauð Halldóri að koma til Nuuk ásamt trúbador, sem var Villi Goði, og stóð hann sig frábærlega.

Að lokum má geta þess að Mads Holm hjá Norræna húsinu hafði samband fyrir nokkru og bauð félaginu að koma að skipulagningu á dagskrá Vestnorrænna daga í Reykjavík í september. Þar sem félagið er 20 ára á þessu ári væri gaman ef að það gæti komið myndarlega að þessu verkefni.

Skúli gjaldkeri fór yfir efnahagsreikning félagsins. Þar kemur fram að langstærsti liðurinn er koma sundkrakkana og var kostnaður vegna komunnar árið 2011 um tvær milljónir en áætla má að hann verði um 3 milljónir í haust þar sem metþátttaka verður, 35 börn og 4-5 fararstjórar. Sermersooq kommune greiðir þó alfarið fyrir fararstjóra. Kostnaður vegna ferðar Hróksins og Kalak var um 650.000 en félagar Hróksins sjá um að sækja um styrki og s.l. ár styrkti Sermersooq bæjarfélagið ferðina í topp. Önnur innkoma en styrkir varðandi þessi tvö verkefni er engin utan 219 þús í félagsgjöld en um og yfir 60% félagsmanna greiða þau. Félagsgjöld duga fyrir útgjöldum annarra þátta.

Þá fór fram kosning stjórnar og Halldór vildi gjarna láta af formannsstarfi þó hann vildi vera í stjórn. Ekkert framboð barst og situr Halldór því sem fastast, enda staðið sig vel. Sörine Christensen gaf ekki áframhaldandi kost á sér og Elisabet B. Níelsdóttir kemur inn í hennar stað, sem meðstjórnandi. Stjórn félagsins er þá þannig skipuð: Formaður, Halldór Björnsson. Gjaldkeri, Skúli Pálsson. Ritari, Arnar Valgeirsson. Meðstjórnandi, Elísabet B. Níelsdóttir. Varamenn eru þeir Róbert Lagerman, Hannes Stefánssson og Stefán Þór Herbertsson.

Umræður spunnust um fyrrnefnda vestnorræna daga í september. Þá tilkynnti Reynir Adolfsson um heilmikla sýningu sem fram fer á Akureyri, einnig í byrjun september þar sem Grænland kemur við sögu ásamt Kanada og Noregi, kynning á Norðurskautslöndum. Viðstaddir voru tilbúnir að koma til hjálpar þegar sundkrakkarnir mæta í haust en sjálfboðið starf hefur verið á fárra höndum og þá helst Skúla svo öll hjálp er þegin. Margar hugmyndir komu fram um hvað hægt væri að gera fyrir krakkana.

Þá komu margar uppástungur varðandi ferðir til Grænlands. Ein hugmyndin var að fá Emil Guðmundsson til að skipuleggja ferðir sem ekki væru ætlaðar eldra fólki eingöngu en hann hefur haldið utan um margar flottar ferðir undanfarin ár.

Eftir að farið hafði verið í gegnum alla liði og önnur mál, sagði Arnar frá skákferðinni sem farin var fyrir páskana til Ittoqqortoormiit og sýndi myndir. Halldór sagði einnig frá ferð sinni til Nuuk – í máli og myndum -.

Arnar Valgeirsson

Umræður

ummæli

Um KALAK

KALAK -- Vinafélag Íslands og Grænlands   Pósthólf 8164 128 Reykjavík Netfang: kalak@kalak.is   Upplýsingar um starf KALAK: Stefán Herbertsson formaður, sími 898 6311, og Hrafn Jökulsson stjórnarmaður í KALAK, sími 763 1797   Viltu styðja starf KALAK? Bankareikningur: 0322-26-2082 Kennitala: 430394-2239
x

Við mælum með

Upplýsingafundur

UPPLÝSINGAFUNDUR UM FLUTNING TIL NOREGS Vegna mikillar aðsóknar á upplýsingafund um flutning til Noregs í ...