Húnarnir enduðu líf sitt í miðju þorpinu. Mynd: Lars Peter Stirling
Á laugardaginn sást til birnu með tvo húna við flugvöllin í Kulusuk og síðar sama dag sáu veiðimenn birnina við Tunu, sem er fjörðurinn norðan við Kulusukeyju. Þetta hefur Sermitsiaq eftir Lars Peter Stirling, skólastjóra grunnskólans í Kulusuk.
Reynt var að hræða birnina lengra í burtu en um nóttina völsuðu þeir um mitt í Kulusuk og þrettán ára gömul stúlka tók húnana fyrir stóra sleðahunda. En þegar hið rétta kom í ljós var allt sett í gang og birnirnir skotnir umsvifalaust enda ekki huggulegt að vita af þeim meðal barna og ungmenna í bænum.
Lars Peter sagði enda ekki um annað að ræða þegar svona gerist. Kjötið fór á dvalarheimili fyrir eldri borgara í Kulusuk en heimastjórnin tekur skinnin til umráða.