Um síðastliðna helgi var haldin vestnorræn hátíð í Reykjavík sem gekk undir heitinu “Nýjar slóðir”. Fjöldinn allur af uppákomum var víðsvegar um borgina, eða aðallega miðbæinn! Tíu gámar voru staðsettir þar og fjórir þeirra í Hljómskálagarðinum, einn þeirra merktur Kalak. Á myndinni má sjá Anne Mette Olsvig (í rauðri úlpu) sem er safnstjóri og verkefnastjóri í “Levende boplads” sem er verkefni sem nær til vestnorrænna landa. Safnið sem hún starfar fyrir er í Qasigiannguit í sveitafélaginu Qaasuitsup. Anne Mette fræddi gesti og gangandi um list og menningu Grænlendinga og var með áhugaverða útstillingu.
Jens Davidsen er trommudansari frá vesturströndinni og sýndi list sína bæði á opnunarhátiðinni á föstudagskvöldinu í Norræna húsinu sem og í Hljómskálagarðinum. Hann skoppaði um allar grundir og náði vel til áhorfenda, ekki síst yngri kynslóðarinnar sem var forvitin – en samt pínu smeyk!
Hún Sörine býr í Sandgerði og kíkti að sjálfsögðu á uppákomurnar ásamt nokkrum grænlenskum vinum. Sörine var lengi í stjórn Kalaks en hefur dregið sig í hlé. Hún hefur margoft komið fram í þessum glæsilega búning sem Kalak á.
Dines og Drusille búa í Tasiilaq. Dines hefur verið í námi í ferðamálafræðum í Qaqortoq í þrjú ár en hefur verið í starfsnámi á Íslandi í sumar og farið sem leiðsögumaður með ferðalanga um fjöll og firnindi. Dines er með duglegri mönnum, fer yfir Grænlandsjökul með ferðalanga á hundasleða, m.a. frá Íslandi, siglir um ísi lagt hafið eða rúntar um á snjósleðanum sínum. Hann hefur fjárfest í þremur húsum í Tasiilaq sem hann hyggst nota í ferðabransanum og ætlar sér stóra hluti. Hann gerir túpílaka í gríð og erg, sem og grímur og málar myndir. Hann hefur gefið út myndskreytta barnabók, vinnur að orðabók svo gömlu austgrænlensku orðin falli ekki í gleymsku og er að byrja á ævisögu föður síns, hans Vittusar, sem lengi var bæjarstjóri í Tasiilaq. Dines og Drusille eru sennilega eina fólkið í Tasiilaq sem á kött! Með þeim á myndinni er hinn óþreytandi gjaldkeri Kalaks, Skúli Pálsson sem hefur haldið glæsilega um komur austurgrænlensku barnanna sem koma til að læra að synda á hverju hausti. Og kynnast jafnöldrum á Íslandi.
Myndirnar tók Arnar Valgeirsson