Um páskana verður haldin mikil skákhátíð í Ittoqqortoormiit, sem er eitt afskektasta þorp Grænlands. Að hátíðinni standa Hrókurinn, Skákakademían og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, og hún markar upphafið að 11. starfsárinu við útbreiðslu skákíþróttarinnar meðal okkar góðu granna.
Ittoqqortoormiit er við Scoresbysund sem liggur á 70. breiddargráðu, og næstum þúsund kílómetrar eru í næsta þorp. 460 manns búa í Ittoqqortoormiit og í grunnskólanum eru nær eitt hundrað börn. Langflest munu þau taka þátt í skákhátíðinni, sem nú er haldin í þorpinu sjöunda árið í röð. Óhætt er að segja að næstum öll börnin í þorpinu kunni að tefla og er efamál að nokkuð þorp í heiminum geti státað af svo miklum skákáhuga!
Í Ittoqqortoormiit búa sumir af frægustu veiðimönnum Grænlands og ísbirnir gera sig iðulega heimakomna í þorpinu. Veiðimannablóðið rennur því um æðar hinna skákþyrstu barna í þorpinu sem vel kunnal að meta skákina, munu þyrpast í skákkennslu, fjöltefli og stórmót sem haldin verða næstu daga. Margir leggjast á eitt til að gleða börnin í Ittoqqortoormiit og aðal bakhjarlar þessa skemmtilega verkefnis eru sveitarfélagið Sermersooq á Grænlandi og Norlandair á Akureyri. Leiðangursmenn eru Arnar Valgeirsson, Hrafn Jökulsson, Jón Birgir Einarsson og Róbert Lagerman. Verðlaun og vinninga gefa Bónus, Penninn, Actavis, Arion banki, Stilling ehf., Nói Síríus, 66°Norður, Sögur útgáfa og Ísspor. Þá mun Sölufélag garðyrkjumanna nesta leiðangursmenn. Hátíðin stendur dagana 28. mars til 2. apríl. Leiðangursmenn leggja í hann frá Akureyri á miðvikudagsmorgun og verður hægt að fylgjast með fréttum af hátíðinni á skak.is.
Einnig á Grænlandssíðu hróksins og Kalak:http://godurgranni.blog.is/blog/godurgranni/