Á samskiptavefnum facebook er til síða sem heitir The Polar bear blog og þar er vísað í hinar ýmsu greinar, héðan og þaðan, þar sem ísbirnir koma við sögu. Grænland er auðvitað þar á meðal en mikið er um greinar og myndir eftir vísindamenn sem ferðast á norðlægum slóðum.
37 mynda sería birtist nýlega eftir ljósmyndarann Sergeydolya og eru hreint frábærar þar sem birna með afkvæmi sitt er á ferðalagi við Frans Josefs land austan við Svalbarða. Margt áhugavert má sjá á þessari síðu, m.a. hvað bjössarnir þurfa stundum að leggja á sig við fæðuleit og sumir sem þarna skrifa hafa lent í honum heldur betur kröppum. Enda getur það verið upp á líf og dauða að mæta þessum skepnum úti á ísnum.