Í sjöunda sinn stendur Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands fyrir komu barna frá litlu þorpum austurstrandar Grænlands. Þau eru hér í tvær vikur og eru í skóla með jafnöldrum í Kópavogi þar sem þau læra að synda á hverjum degi. Nú eru 29 börn í Sala- og Lindaskóla og það er magnað hvað fyrirtæki og einstaklingar hafa tekið þeim vel. Haraldur Erlendsson sundkennari er kraftaverkamaður og fyrir hans tilstilli hefur börnunum verið boðið margsinnis í mat, á Þingvelli, Gullfoss og Geysi og á áhugaverða staði.
Íþrótta- og tómstundaráð bauð þeim í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Smárabíó á Ísöld 4, Skemmtigarðurinn í Smáralind bauð þeim í eftirminnilega tívolístund, þau heimsóttu Skautahöllina í Reykjavík og þessir krakkar eru að upplifa heiminn. Enda eru þau að gera næstum allt í fyrsta sinn, fara í flugvél, bíó, verlsunarmiðstöðvar, hestbak og hafa reyndar aldrei séð hvorki hesta né kindur! Nú, og svo eru engar sundlaugar á austur Grænlandi þannig að það er margt nýtt og allt jákvætt.
Þá bauð Skákakademía Reykjavíkur upp á skákkennslu á mánudagskvöldið, við mikinn fögnuð, en nokkur barnanna hafa lært að tefla hjá sendiboðum Hróksins sem heimsótt hafa austurströndina undanfarin ár. Þá munu þau heimsækja forsetann að Bessastöðum á fimmtudaginn, en hópurinn hefur fengið þar heimboð undanfarin ár. Þykir bæði fararstjórum og börnunum mikil upphefð í því að heimsækja Ólaf Ragnar Grímsson og Dorrit.
Skólastjórinn í Kulusuk, Lars Peter Stirling hefur leitt leiðangrana frá upphafi og hafa ferðirnar gengið eins og í sögu. með í för eru einnig hjónin Lars og Marianne Mikaelsen frá Kulusuk en þau eru að koma í þriðja sinn. Þá er hinn danski Bjarne Hauthorner sem kennt hefur ví’svegar í áratugi en heldur nú utan um sjötta bekk í Kuummiut en þaðan koma nú þrettán börn sem er ótrúlega mikið frá rúmlega 300 manna bæjarfélagi. Frá Ittoqqortoormiit við Scoresbysund kemur hún Susanna Pike Ljunggren en hún er nýflutt aftur heim eftir að hafa verið í átta ár í Nuuk þar sem hún kláraði menntaskóla og fór svo í kennaraskóla.
Kópavogsbær hefur staðið afar vel að málum frá upphafi og þau sem halda utan um skólamálin þar eiga miklar þakkir skildar.
Á myndunum sem Arnar Valgeirsson tók má sjá kátan hópinn fyrir utan gistiheimilið BB44 í Kópavoginum, með húfur og buff sem Flugfélag Íslands gaf krökkunum. Flugfélagið hefur stutt við þetta verkefni í gegnum árin með því að bjóða afar góð kjör fyrir krakkana. Hópurinn hefur ávallt gist á BB44 enda hafa eigendurnir stjanað við krakkana, fyrstu árin á Borgarholtsbrautinni og síðan á Níbýlaveginum þar sem aðstaðan er enn betri fyrir svona stóran hóp. Með myndavélina er höfuðsmaðurinn hann Lars Peter Stirling, sem hefur komið að verkefninu Grænlandsmeginn. Þá er það Bjarne Hauthorner sem er í Kuummiut, svo eru þær Maríanne og Susanna og svo er það Lars Mikaelsen sem ávallt er eitthvað að leika við krakkana. Þau eru öll ótrúlega indæl og hafa góð tök á þessum 29 barnahóp.